Hættum að urða

Þess vegna flokkum við

Hefur þú séð hvernig urðunarstaður lítur út? Myndirnar í myndbandinu af urðunarstöðunum voru teknar í júní og júlí 2023.

Veist þú hvað verður um ruslið þitt?

Íslendingar urða 200.000 tonn af sorpi á hverju ári. Urðun er lokaförgun þar sem hvorki efni né orka úr úrganginum nýtist þar sem sorpið er einfaldlega grafið ofan í jörðina. Því fylgir meðal annars mengaður jarðvegur, mengað grunnvatn, slæm áhrif á dýralíf og losun hættulegra gróðurhúsalofttegunda. Á Íslandi eru í dag um 16 virkir urðunarstaðir sem flestir hafa verið í notkun síðan upp úr aldamótum. Þar að auki eru 60 urðunarstaðir á landinu sem vitað er af og ýmist voru virkir og hefur nú verið lokað eða höfðu aldrei starfsleyfi og eru ekki lengur í notkun. Fyrir utan sóunina á landssvæðum sem fylgir urðunarstöðum þá stafar mengunarhætta af þeim í hundruði ára frá lokun staðarins. Urðunarstaðir eru reknir af sveitarfélögum landsins, byggðarsamlögum sveitarfélaga eða með verktökum á vegum sveitarfélaga.

Á síðustu 10 árum voru urðuð u.þ.b. 2.000.000 tonn af sorpi. Ef það sorp hefði verið pressað saman og baggað og raðað yfir Laugardalsvöll væri 280 metra hár turn upp í loftið sem myndi þekja völlinn nú í dag. Það eru tæplega 4 Hallgrímskirkjur að hæð.

Það er því mjög mikilvægt að flokka eins vel og hægt er svo sem minnst af úrgangi sem fellur til endi í urðun og mengi fallega landið okkar.

Í myndbandinu hér að neðan sjást myndir frá urðunarstöðum landsins sem teknar voru í júní og júlí 2023

Ekkert gerist við urðun á sorpi: Forstjóri gramsar í gömlu rusli

Hætt var að urða sorp á urðunarstaðnum í Hrísmýri á Selfossi árið 1990. Í eftirfarandi myndbandi má sjá þegar forstjóri Íslenska gámafélagsins, Jón Þórir Frantzson, grefur upp sorp úr urðunarstaðnum sem ekki hefur verið virkur í þrjátíu ár. Þar var meðal annars að finna 30 ára gamlar buxur, umbúðir undan áleggi og 30 ára gamla símaskrá sem enn var hægt að lesa nöfnin og símanúmerin úr.

Smelltu hér til að horfa á myndband

Útflutningur á blönduðum úrgangi til orkunýtingar

Árið 2019, þegar upp kom sú staða að nokkur sveitarfélög höfðu ekki lengur aðgang að urðunarstað, hófst vinna við að leysa þetta vandamál. Úr varð að almennt sorp frá þessum sveitarfélögunum fer í útflutning til Evrópu þar sem það er brennt til orkunýtingar og orkan úr úrganginum er nýtt til húshitunar og rafmagnsframleiðslu í stað kola og olíu.

Til að kanna umhverfisáhrif af því að flytja sorpið til orkunýtingar í Evrópu samanborið við urðun hérlendis, var verkfræðistofan Resource International fengin til að skoða málið. Niðurstaða þeirra var að með því að sigla með sorpið til Evrópu og brenna það til orkunýtingar sparast umtalsvert magn af CO2 útblæstri. Í raun er sparnaðurinn slíkur að ef allt það magn sem urðað er á Íslandi færi til orkunýtingar í Evrópu myndi það draga úr CO2 losun sem nemur útblæstri frá um 107.000 bensínbílum. Það er því ljóst að flutningur á almennu sorpi til orkunýtingar í Evrópu er mun umhverfisvænni leið heldur en urðun úrgangs.

Ef þessi 200.000 tonn sem eru urðuð á ári væru þess í stað send til orkunýtingar í Evrópu væri ekki einungis dregið úr CO2 losun heldur væri hægt að nýta orkuna fyrir 35.500 heimili í Evrópu á hverju ári.

Í dag sendir Íslenska Gámafélagið árlega um 20.000 tonn af sorpi til orkunýtingar í Evrópu.

Tengdar greinar

Tilkynning um gjaldskrárbreytingu á landsbyggðinni

Gjaldskrárbreytingar á hráefni og þjónustu.

Bréfpokar í stað maíspoka fyrir matarleifar

Breytingin tekur gildi um áramót á höfuðborgarsvæðinu, Vesturlandi, Suðurlandi og Reykjanesi.

Tilkynning um gjaldskrárbreytingu

Gjaldskrárbreytingar á hráefni og þjónustu.