Endurvinnsla

Plastplan

Við höfum verið í samstarfi við Plastplan um nokkurra mánaða skeið. Markmið Plastplan er að standa að raunverulegri endurvinnslu plastefna. Endurvinnslan felur í sér móttöku neytendaplasts og umbreytingu í nýja nytjahluti. Plastplan býr yfir tækjakosti og þekkingu til að taka á móti öllum flokkum plasts, plastið er kurlað niður og eru sérhannaðar vélar notaðar til að búa til nýja nytjahluti úr úrgangs plastinu.

 

Samstarf

Við hjá Íslenska Gámafélaginu erum mjög hrifin af nýsköpun og skemmtilegum lausnum tengdum umhverfismálum. Gaman er að segja frá því að lífdísel framleiðslan okkar hófst með ungum eldhuga sem vildi prófa að nýta afgangs matarolíu til þess að framleiða eldsneyti. Nú í dag framleiðum við þúsundi lítra af lífdísel á ári.
Þegar mennirnir á bakvið Plastplan höfðu samband þurftum við ekki að hugsa okkur lengi um og slógum til enda einstaklega klárir og metnaðarfullir menn þar á ferð.

Lok á ruslatunnum eiga það til að fjúka upp í vondum veðrum og þar af leiðandi skapast fokhætta á rusli út í náttúruna. Með þetta í huga hannaði Plastplan festingu fyrir lokið til að vindurinn næði ekki að feykja því upp.

Festingin er framleidd úr plasti sem fellur til í starfsemi okkar. Plastbrúsar undan matarolíu í lífdíselframleiðslu okkar var fyrsta plastið sem Plastplan gerði tilraunir með. Auðvelt er að endurvinna þá gerð plasts en mikill tími fór í að þrífa olíuna úr brúsunum. Við mundum svo að við sátum uppi með mikið magn af plastpokum sem voru ónýtir eða ónothæfir og kom í ljós að þeir henta einkar vel í þetta verkefni. Plastpokarnir fá því framhaldslíf sem lokfestingar á tunnur í stað þess að lenda í urðun.

Hvað er Plastplan?

Plastplan er ungt plastendurvinnslu fyrirtæki sprottið upp úr áhuga tveggja frumkvöðla á umhverfis- og loftslagsmálum. Að Eyjaslóð 9, 101 Reykjavik, er starfsstöð Plastplan þar sem fram fer endurvinnsla; flokkun, hreinsun, hökkun og umbreyting á plasti, samhliða hönnun nytjahluta úr endurunnu plasti.

Plastplan sérhæfir sig í plastendurvinnslu, hönnun og fræðslu, og býður því upp á nýstárlega heildstæða lausn fyrir samstarfsaðila með samfélagslegri skírskotun. Markmið þjónustunnar er að draga úr plastsóun, en við þá vinnu er stuðst við þarfagreiningu, vettvangsrannsóknir og viðtöl. Í kjölfarið tekur Plastplan á móti því aflögu plasti sem enn er óumflýjanlegt við núverandi aðstæður hjá samstarfsaðilum. Plastplan leggur áherslu á að snúa við óheilbrigðu sambandi einstaklinga og fyrirtækja við plast með fræðslu. Til að ná því markmiði er sýnt fram á nýtingarmöguleika hráefnisins með raunverulegri endurvinnslu þar sem öllu plastinu er umbreytt í nýja nytjahluti sem henta framleiðslu eða þjónustu viðkomandi samstarfsaðila.

Framleiðsluaðferð Plastplan stuðlar að gagnsærri endurvinnslu og gegnir því veigamiklu hlutverki í fræðslu endurvinnslumála. Hugarfarsbreyting á sér stað þegar einstaklingar sjá “plastrusl” umbreytast í nytjahluti og með tímanum er von okkar að einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir læri að bera virðingu fyrir hráefninu jafnt og timbri, stáli og öðrum hráefnum. Öll hráefni eiga sér uppsprettu í náttúrulegum auðlindum jarðarinnar og ljóst er að óhófleg neysla hefur gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir umhverfi, vistkerfi og loftslag, ekki síst neysla einnota hluta. Því teljum við efni sem eru skömminni skárri valmöguleikar en plast ekki vera rétta leið til að takast á við ofneyslu einnota hluta. Mikilvægt er að leita heildstæðra lausna en ekki skárri einnota poka eða skárri einnota rör, sem er lítið annað en neyslu friðþæging sem gengur einfaldlega á aðrar auðlindir jarðar. Með gagnsærri endurvinnslu er vandamálið greint, tekist á við það án þess að einfaldlega láta plastið hverfa og með því viljum við auka umhverfisvitund sem hefur möguleika á að bæta neyslumynstur til lengri tíma.

Með auknum sýnileika og þátttöku vonast Plastplan til að geta haft áhrif á plastnotkun með jákvæðu innleggi í samfélagsumræðuna og samtímis stuðlað að breytingum með raunverulegri endurvinnslu.

Meira á www.plastplan.is

Tengdar greinar

Hvað verður um pappír og pappa? (myndband)

Í meðfylgjandi myndbandi sést ferli frá innsöfnun pappírs og pappa að útflutningi til móttökuaðila erlendis.

Tilkynning vegna starfa okkar við sorphirðu á Álftanesi

Vegna þeirra umræðu sem hefur skapast vegna starfa okkar við sorphirðu frá heimilum á Álftanesi…

Tilkynning um gjaldskrárbreytingu á landsbyggðinni

Gjaldskrárbreytingar á hráefni og þjónustu.