Leiguskilmálar

1. Leigutaki samþykkir ákvæði leigusamnings og skilmála þessa með undirritun á leigusamning og/eða við greiðslu fyrsta reiknings.

2. Samningar, ef gerðir eru og  við á, eru gefnir út í 2 eintökum, eitt fyrir leigutaka og annað fyrir leigusala og skulu undirritaðir af báðum aðilum.

3. Breytingar á samningi (fjöldi og gerða leigumuna og þjónustu) eru ekki háð undirskrift leigutaka. Leigutaki samþykkir breytingar og  skuldbindur sig nýju fyrirkomulagi með  greiðslu reiknings

4. Leigutaki skal tilkynna leigusala um aðsetursskipti um leið og þau verða. Sama á við ef breytingar verða á greiðslukortaupplýsingum greiðslukorts sem lagt er til tryggingar á greiðslum skv. samningi.

5. Leiguverð og sjálfsáhætta vegna tjóna tekur breytingum skv. vísitölu neysluverðs á hverjum tíma. Grunnvísitala neysluverðs er gildandi vísitala í þeim mánuði sem leiga hefst.

6. Um samninga þá sem gerðir eru á grundvelli neðangreindra skilmála, þar með talið bótakröfur sem eftir atvikum kunna að vera gerðar, fer að íslenskum lögum. Gildir það bæði um grundvöll og útreikning bóta. Sama gildir um bótakröfur á grundvelli bótaábyrgðar utan samninga.

7. Bent skal á að skjóta má ágreiningsmálum samningsaðila leigusamnings til starfandi úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna.

8. Rísi mál út af leigusamningi skal málið rekið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur.

Afhending hins leigða:

10. Leigusali ábyrgist afhendingu leigumuna á umsömdum tíma og að þeir fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra.

11. Bili eða skemmist leigumunur vegna eðlilegs slits eða notkunar, skal leigusali laga það eins fljótt og auðið er. Við alvarlegar bilanir skal leigusali afhenda leigutaka nýjan leigumun á meðan viðgerð stendur yfir, leigutaka að kostnaðarlausu.

12. Framangreint hefur ekki áhrif á greiðslu leigugjalds eða annars sem leigutaka ber að greiða samkvæmt leigusamningi. Leigusali greiðir engar bætur í þeim tilvikum sem að framan greinir, hvorki vegna vinnutaps, né annars.

13. Leigusali skal kynna leigutaka efni leigusamnings og sérstaklega þær skyldur sem hann tekur á sig með undirritun hans, ef við á.

14. Vilji leigusali takmarka notkun leigumunar með hliðsjón af útbúnaði þess og/eða annars skal það gert skriflega við undirritun leigusamnings.

15. Leigusali ábyrgist að vera ávallt með gilda starfsábyrgðartryggingu.

16. Leigusali er ekki ábyrgur fyrir hvarfi muna, skaða á þeim eða skaða af völdum þeirra, sem leigutaki, eða einhver annar aðili, geymdi í eða á, eða flutti í eða á leigumun.

17. Leigutaki staðfestir með undirritun sinni á leigusamning þennan og/eða greiðslu reiknings að hann hafa tekið við leigumun og fylgihlutum í góðu ásigkomulagi.

Meðferð hins leigða:

18. Leigumunur skal notaður og skal umgengni um hann vera gætileg.

19. Leigutaka er óheimilt:

a. að nota leigumun í eitthvað annað en það sem hann er leigður fyrir.

b. að yfirfylla t.d. gáma og ílát með meiri þyngd en framleiðandi þeirra leyfir.

c. að losa spilliefni eða annan hættulegan úrgang í eða við leigumuni án samþykkis leigusala.

d. að nota leigumun þannig að það brjóti í bága við landslög og/eða ákvæði leiguskilmála.

e. að breyta leigumuni án samþykkis leigusala.

f. að áfram leigja leigumun, framselja hann eða lána. Leigutaki má ekki veita öðrum aðila afnot af hinu leigða umfram það sem samningur heimilar, né afhenda það með öðrum hætti, án samþykkis leigusala.

g. að flytja leigumun úr landi

h. að annast sjálfur eða versla þjónustu af þriðja aðila vegna losun, viðhalds og/eða flutnings á leigumun án samþykkis leigusala.

20. Hafi árekstur, slys eða annað tjónsatvik orðið á leigumun skal leigutaki tafarlaust tilkynna um atburðinn til viðkomandi lögregluyfirvalda og/eða árekstrarþjónustu svo og til leigusala og má leigutaki eigi yfirgefa vettvang, fyrr en lögregla og/eða árekstrarþjónusta hefur mætt á vettvang eða gefið heimild um að leigutaki megi yfirgefa vettvang. Tilkynni leigutaki ekki um tjón ber hann fulla ábyrgð á því tjóni. Leigusali ábyrgist ekki að leigutaki fái nýjan leigumun sé leigutaki ábyrgur fyrir tjóni og er það háð skilyrðum leigusala.

21. Þurfi leigusali að sækja eða láta sækja leigumun vegna áreksturs, bruna eða annars tjónsatviks ber leigutaki allan kostnað vegna þessa skv. verðskrá leigusala hverju sinni.

22. Leigusali getur rukkað leigutaka um sérstakt gjald vegna slæmrar umgengni eða ólyktar í leigumun t.d. vegna úrgangs, skemmda eða annars.

23. Leigutaka er óheimilt að láta fara fram viðgerðir eða breytingar á leigumun og fylgihlutum þess eða leyfa nokkra veðsetningu á því án áður fengins samþykkis leigusala.

24. Leigutaka bera að halda hinu leigða vel við og tilkynna leigusala um allar skemmdir og bilanir jafnóðum og þær verða.

Skil á hinu leigða/Lok leigusamnings:

25. Leigutaki skal segja upp leigusamning eða leigusamningsígildi með sannanlegum hætti. (tölvupóst eða ábyrgðarbréfi).

26. Leigutaki skal skila leigumun:

a. ásamt öllum fylgihlutum í sama ásigkomulagi og það var við móttöku að undanskildu eðlilegu sliti vegna notkunar. Leigutaki samþykkir að greiða samkvæmt verðskrá leigusala einstaka hluta sem ekki fylgja við skil.

b. á tilskildum tíma samkvæmt samningi nema um annað verði samið síðar.

c. á umsömdum tíma skv. leigusamningi sem, í skilningi leigusamnings, er aldrei skemmri tími en þar til leigusali hefur skráð leigumun móttekið í sínu kerfi, en slíkt getur einungis átt sér stað á opnunartíma skrifstofu leigusala.

d. til aðseturs leigusala nema um annað hafi verið samið.

27. Skili leigutaki leigumun eftir að samningstími rennur út er leigusala heimilt að innheimta daggjöld skv. verðskrá.

28. Leigutaki skal greiða fyrir skemmdir sem verða á leigumun, á meðan leigumunur er á hans ábyrgð og í hans umsjá. Verði viðhald og þrif óeðlilega mikil vegna t.d. rangrar notkunar eða slælegrar meðferðar, skal leigutaki greiða sérstaklega fyrir slíkt viðhald og þrif.

29. Leigutaki samþykkir að greiða leigusala samkvæmt kröfu öll útgjöld, sem leigusali verður fyrir, ef hann þarf að koma leigumun til baka til aðseturs leigusala hafi það verið skilið eftir eftirlitslaust, án tillits til ástands leigumund, vega eða veðurs.

30. Óski leigutaki eftir að skila inn leigumun áður en samningstími er liðinn, er heimilt að gjaldfæra sem nemur 2 mánaða leigu. Við skil á leigumun áður en leigusamningur er liðinn skal fara fram uppgjör á leigu í hlutfalli við leigutíma.

31. Þegar um ótímabundna samninga er að ræða, gilda þeir frá undirritun til enda uppsagnarfrests. Uppsagnarfrestur er þrír mánuðir frá og með fyrsta degi næsta mánaðar eftir að uppsögn berst með sannanlegum hætti.

32. Annist leigusali fjarlægingu á leigumun skal leigutaki greiða fyrir þá þjónustu samkvæmt gjaldskrá leigusala.

Tryggingar:

33. Allir leigumunir í eigu leigusala eru tryggðir hjá leigusala og greiðir leigutaki fyrir þá tryggingu í leiguverði. Trygging leigutaka er ekki valkvæð. Trygging leigusala tekur yfir;

a. Skemmdir á leigumun af völdum bruna

b. Skemmdir á leigumun af völdum þriðja aðila sem ekki fæst bætt úr tryggingu þess er tjóninu veldur

c. Skemmdir á leigumun af völdum foks á leigumun

34. Eigin áhætta greiðir leigutaki að hámarki 31.000 kr. af hverjum leigumun.

35. Tryggingargjald er innifalið í leiguverði leigumunar og tekur breytingum samhliða leiguverði.

36. Að því marki sem tjón á leigumun fæst ekki bætt úr tryggingu leigusala eða úr hendi þriðja aðila, þ.m.t. ábyrgðartryggingu, ber leigutaki fulla ábyrgð á hverju tjóni sem verður á leigumun og getur ábyrgð hans numið allt að fullu verðgildi leigumunar. Skal leigutaki greiða að fullu allan kostnað vegna tjóns eða skemmda á leigumun sem hann ber ábyrgð á skv. verðskrá eða verðmati frá leigusala. Trygging sem innifalin er í leiguverði bætir tjón á leigumuni eins og nánar er kveðið á um í gildandi skilmálum hverju sinni. Leigutaki greiðir eigin áhættu í hverju tjóni sem er misjöfn eftir umfangi tjónsins.

37. Leigutaki greiðir fyrir alla umsýslu og vinnu sem leigusali innir af hendi. Dæmi (ekki tæmandi talning)

a. Fjarlæging á skemmdum leigumun.

b. Þrif er rekin eru til tjónsins.

c. Afhendingu nýs leigumunar.

38. Trygging á leigumun bætir tjón á leigumun. Dæmi (ekki tæmandi talning) um tjónstilvik sem trygging nær ekki yfir:

a. Skemmdir sem valdið er af ásettu ráði eða stórkostlegu gáleysi.

b. Skemmdir sem verða þegar notandi er undir áhrifum áfengis, örvunar, eða deyfilyfja, eða að öðru leyti ófær um að nota leigumun á tryggilegan hátt.

c. Skemmdir af hernaði, uppreisn, óeirðum, óspektum.

d. Skemmdir af völdum dýra.

e. Brunagöt á veggjum eða innréttingum (vinnuskúrar).

f. Tjón leigusala vegna þjófnaðar á leigumun.

g. Tjón af völdum þess að sandur, möl, aska, vikur eða önnur jarðefni fjúka á leigumun.

h. Vatnsskaða á leigumun.

i. Ef leigumunur er fluttur sjóleiðina bætist ekki tjón af völdum sjóbleytu.

Greiðslur:

39. Umsamið leiguverð er innheimt mánaðarlega, nema um annað hafi verið samið. Leigugreiðslur eru innheimtar eftir á. Sé leiguverð greitt með Boðgreiðslusamningi skal samningur fylgja leigusamningi og hann undirritaður af leigutaka. Innifalið í leigugjaldi er hefðbundið viðhald sem myndast við eðlilega notkun. Ekki er innifalin þjónusta vegna viðgerða sem orsakast af óeðlilegu sliti eða slæmri meðferð leigumunar.

40. Gjald fyrir þjónustu Íslenska gámafélagsins ehf. er í samræmi við vísitölu neysluverðs sem breytist 1. janúar og 1. júlí ár hvert. (ath. ekki reglulega eins og var í samningum). Óski leigutaki eftir annarri þjónustu en samningur tekur til skal hann greiða fyrir hana skv. gjaldskrá leigusala.

41. Leigutaki er ábyrgur fyrir öllum stöðumælasektum og sektum fyrir umferðarlagabrot. Leigusala er heimilt að taka þjónustugjald í samræmi við verðlista fyrir meðhöndlun sektagreiðslna og fyrir að veita upplýsingar vegna lögbrota. Innheimtar sektir og þjónustugjöld verða skuldfærðar á greiðslukort leigutaka eða sendar sem reikningur.

42. Fáist ekki skuldfærsluheimild á greiðslukort skv. boðgreiðslusamningi er samningur komin í vanskil. Greiði leigutaki ekki leiguna og aðrar greiðslur sem gjaldfallnar eru og honum ber að greiða á gjalddaga, skal hann greiða leigusala hæstu lögleyfðu dráttarvexti af hinni vangreiddu fjárhæð auk kostnaðar skv. framlagðri gjaldskrá leigusala ásamt öðrum kostnaði sem af getur hlotist, svo sem lögfræði- eða málskostnað. Dráttarvextir eru ákvarðaðir skv. ákvæðum III. kafla laga nr. 38/2000 um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum, af gjaldfallinni fjárhæð og kostnaði. Sé krafa ekki greidd innan tilgreinds frests hefur Íslenska gámafélagið heimild til að nálgast  upplýsingar um viðkomandi til CreditInfo.

43. Fyrirtæki og rekstraraðilar geta óskað eftir reikningsviðskiptum. Um þau gilda skilmálar Íslenska Gámafélagsins um reikningsviðskipti og er sótt um þau sérstaklega.

44. Leigusamningur getur verið tímabundinn og óuppsegjanlegur, leigutaki getur ekki skilað leigumun fyrr en í lok leigutíma. Komi hins vegar upp sú staða að leigutaki af einhverjum ástæðum skili leigumun, þarf hann samt sem áður standa að öllu leyti við samning þennan þar með talið standa skil á leigugreiðslum. Standi leigutaki ekki við leigugreiðslur verða ritunarákvæði virk.

45. Leigusala er heimilt að gjaldfæra á greiðslukorti leigutaka leigugjald og annað sem leigutaka ber að greiða samkvæmt leigusamningi, svo sem greiðslur vegna tjóns sem verður á leigumun á meðan það er í vörslum leigutaka, og skal leigusali einn hafa ákvörðunarvald um hvenær það skuli gert, og hvort það sé gert í einu lagi eða ekki. Réttur þessi stendur óhaggaður í 12 mánuði eftir að leigumun hefur verið skilað til leigusala.

Riftun:

46. Leigusala er heimilt að rifta samningi án fyrirvara verði veruleg vanefni af hálfu leigutaka eða brjóti hann einhverja grein samnings eða leigusali getur ekki lengur innt af henni skyldur sínar skv. honum. Sem dæmi má nefna:

a. Ef leigutaki innir ekki af hendi tilskildar greiðslur, samkvæmt samningi á umsömdum gjalddögum.

b. Ef leigutaki hlítir ekki að öðru leyti skilyrðum samnings um meðferð á leigumun.

c. Ef leigutaki veitir ekki leigusala eða þeim er hann tilgreinir aðgang að leigumun sé þess óskað.

d. Ef leigutaki flytur eða reynir að flytja hið leigða úr landi.

47. Þá er leigusala einnig heimilt að segja samningi upp án fyrirvara séu eftirtaldar ástæður utan samnings fyrir hendi:

a. Ef bú leigutaka er tekið til gjaldþrotaskipta eða hann leitar nauðasamninga eða greiðsluaðlögunar við skuldheimtumenn sína.

b. Ef einhverjar þær breytingar eru gerðar á rekstri eða skipulagi hjá leigutaka er komið geta í veg fyrir að hann fullnægi skuldbindingum sínum samkvæmt samningi.

48. Uppgjör milli leigusala og leigutaka vegna loka eða riftunar samnings fer fram þessum hætti:

a. Leigutaki skal greiða allar gjaldfallnar og ógjaldfallnar leigugreiðslur, ásamt dráttarvöxtum.

b. Leigutaki skal greiða allan kostnað samkvæmt samningi, svo og vegna riftunar samnings og innheimtuaðgerða, þ.m.t. innheimtu- og málskostnaður lögmanns skv. gjaldskrá hans, ásamt skaðabóta vegna tjóns, er leigusali kann að verða fyrir vegna þess að samningi er rift fyrir lok leigutíma. Leigusali getur þó ekki krafist bóta nema samningi sé sagt upp vegna vanefnda leigutaka.

c. Dráttarvextir reiknast af liðum 1-2 hafi uppgjör ekki farið fram innan 15. daga frá því samningi var sagt upp eða rift.